„Ég myndi ekki beint segja að þetta séu vonbrigði en þetta hefur að einhverju leyti gengið hægar en við áttum von á,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í samtali við Fréttablaðið um nýskráningar ársins í Kauphöll Íslands.

Í upphafi árs töldu greiningardeildir Íslandsbanka og Arion banka að sex til sjö félög yrðu skráð á markað á árinu og áttu nýskráningar þeirra að stækka hlutabréfamarkaðinn um 35-40 prósent. Þegar átta mánuðir eru liðnir af árinu hafa hins vegar einungis tvö þeirra, HB Grandi og Sjóvá, verið skráð í Kauphöllina.

Kristján Markús Bragason, umsjónarmaður hlutabréfagreiningar Íslandsbanka, segist telja í samtali við Fréttablaðið að menn hafi gefið fullmikið í þegar verið var að tala um sjö félög. „Það var eðlilegt að gera ráð fyrir Promens og Advania. Félögin voru á þeim tíma með samsetningu stórra hluthafa að skráning var líkleg,“ segir Kristján en bætir við að það hafi breyst hvað varðar Advania vegna óvæntrar breytingar á hlutahafahóp félagsins.