Mjög hefur færst í aukana að fjárfestar sækist eftir því að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum til kaupa á hlutabréfum í Kauphöllinni. Umfang viðskiptanna hefur almennt verið mjög takmarkað upp á síðkastið en nú eru vísbendingar um að lánveitingar séu að aukast á ný, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Þar segir m.a. að ásókn bæði fjárfestingarfélaga og spákaupmanna í skuldsett hlutabréfakaup eigi sér ekki síst stað í aðdraganda nýskráninga fyrirtækja á markað. Blaðið áætlar að bankar láni fjárfestum á annan milljarð króna til kaupa á hlutabréfum í útboði VÍS sem lýkur í dag.

Í blaðinu segir að fjárfestar leggi oftast fram 25% af eigin fé á móti 75% lánum sem bera 3% álag ofan á grunnvexti sem geta verið í kringum 9% á óverðtryggðum lánum. Ströng skilyrði fylgja lánveitingum sem þessum og eru bankar enn mjög tregir til að veita lán til hlutabréfakaupa.

Morgunblaðið hefur eftir viðmælendum sínum að líkja megi við ástandinu á hlutabréfamarkaði við gullgrafarastemningu þar sem gengi félaga sem hafi nýlega verið skráð á markað hafi hækkað mikið. Þannig hefur gengi bréfa Haga hækkað um 70% frá skráningu á markað í lok árs 2011 og gengi bréfa fasteignafélagsins Regins hækkað um rúm 60% frá í fyrrasumar.