Alþýðusamband Íslands, ASÍ, segir það mikið fagnaðarefni að tekist hefur sátt um að koma upp að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum fyrir tekjulágar fjölskyldur. Þetta kemur fram í frétt á vef sambandsins.

Kerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum og stillt þannig af, að leiga verði ekki hærri en sem nemur 20-25% af tekjum viðkomandi fjölskyldna. ASÍ segir þetta mikinn áfangasigur fyrir aðildarsamtök ASÍ sem barist hafa fyrir því að koma slíku kerfi á allt frá því að verkamannabústaðakerfið var lagt af fyrir 15 árum síðan.

Einnig er því fagnað að að frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur verði lagt fram núna á vorþinginu, en samkvæmt frumvarpinu hækkar stuðningur við leigjendur á fasteignamarkaði umtalsvert, einkum almenns launafólks.