Fyrir skömmu var eintakafjöldi Fréttablaðsins, sem dreift er á landsbyggðinni, skorinn niður um allt að helming í sparnaðarskyni. Til Ísafjarðar koma aðeins um 300 eintök sem duga aðeins fyrir um fjórðung heimila segir í frétt á vef Bæjarins besta. "Margir lesendur blaðsins grípa því í tómt þegar þeir reyna að nálgast blaðið," segir í frétt BB.

Sem kunnugt er hefur Fréttablaðinu verið dreift ókeypis frá stofnun þess. Á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri er blaðinu dreift í hvert hús. Á aðra staði á landsbyggðinni er blaðinu dreift í valdar verslanir þar sem hægt er að nálgast blaðið. Um dreifingu blaðsins sér Pósthúsið ehf. Í frétt BB kemur fram að starfsmaður Pósthúsins segi að eintakafjöldi, sem dreift er á landsbyggðina, hafi verið skorinn niður fyrir nokkrum vikum síðan. "Samkvæmt upplýsingum frá verslunum á Ísafirði nemur niðurskurðurinn um helmingi eintaka. Nú mun því vera dreift í verslanir á Ísafirði í um 300 eintökum og er það hvergi nærri nóg því heimili á Ísafirði eru um 1.200 og fyrirtæki ríflega 100. Dugir eintakafjöldinn því einungis um fjórðungi heimila. Þess má geta að Fréttablaðinu er dreift til áskrifenda DV á landsbyggðinni," segir í frétt BB.

Starfsmenn tveggja verslana á Ísafirði sem fréttamaður BB ræddi við í morgun sögðust verða varir við töluverða óánægju hjá þeim vegna þessa niðurskurðar. Þeirri óánægju hefði verið komið á framfæri við blaðið en viðbrögð hefðu engin orðið ennþá. Einn verslunareigandi sagðist þó hafa fengið sinn skammt stækkaðan að nýju eftir að hann hafði gert athugasemdir.

Starfsmaður Pósthússins ehf. sem rætt var við sagði þennan niðurskurð gerðan í sparnaðarskyni en vísaði að málinu að öðru leyti til fjármáladeildar blaðsins og markaðsstjóra. "Starfsmaður fjármáladeildar svaraði ekki skilaboðum blaðamanns í morgun. Jóhanna Pálsdóttir markaðsstjóri Fréttablaðsins kom af fjöllum þegar rætt var við hana í morgun. Hún sagðist ekki hafa heyrt af þessum niðurskurði þar sem hún væri nýbyrjuð á blaðinu," segir í frétt BB.