Líkur benda til þess að Barack Obama, sem tekur við forsetaembættinu í Bandaríkjunum í byrjun næsta árs, muni tilkynna um útnefningar til embætta er varða efnahag Bandaríkjanna mjög fljótlega.

Á fréttavef Reuters fréttaveitunnar segir að Timothy Geithner, formaður Seðlabanka New York, Lawrance Summers fyrrverandi fjármálaráðherra og Paul Volcker fyrrum yfirmaður hjá Seðlabanka Bandaríkjanna, séu líklegir í embætti  næsta fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Óhætt er að segja að Obama taki við slæmu búi. Efnahagsástand Bandaríkjanna hefur ekki verið eins slæmt og nú svo áratugum skiptir. Þungar byrðar eru því lagðar á Obama og búast Bandaríkjamenn sem og öll heimsbyggðin við miklu af honum.

Sérfræðingar segja að mikilvægt sé fyrir Obama að hefja strax uppbyggingu og stefnumótun í efnahagsmálum. Mikilvægt sé að hann og væntanlegir samstarfsmenn hans verði vel málum kunnir þegar kjörtímabil hans hefst.