Bankastjórn Englandsbanka hefur ákveðið að halda stýrivöxtum í Bretlandi óbreyttum í 0,5%. Á sama tíma verður áfram haldið að styðja við efnahagslífið. Vextir voru færðir niður í 0,5% í mars árið 2009 og hafa þeir ekki hreyfst síðan þá.

Ákvörðunin kom ekki á óvart í röðum fjármálasérfræðinga enda lýstur Mark. J. Carney því yfir um það leyti sem hann tók við starfi seðlabankastjóra af Mervyn King í sumar að ekki verði hrófað við vöxtum fyrr en atvinnuleysi verði komið undir 7%. Atvinnuleysi mælist nú 7,7%. Viðbúið er að það komist niður að mörkum bankastjórans eftir um þrjú ár.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir horft til þess að lágt vaxtastig dragi úr óvissu á mörkuðum og geti það eins aukið lántökur og fjárfestingar. Gangi það eftir komist efnahagslífið á skrið á nýjan leik sem geti svo leitt til vaxtahækkunar.