Áætlanir gera ráð fyrir að velta Kvosar-samstæðunnar verði um átta milljarðar króna á þessu ári en velta samstæðunnar var um 4,7 milljarðar króna á síðasta ári. Félagið, sem til skamms tíma var þekkt undir nafninu Prentsmiðjan Oddi, hefur undanfarið aukið mjög erlenda starfsemi sína en í nýlegu sex mánaða uppgjöri samstæðunnar gerðist það í fyrsta skipti að 50% af tekjum félagsins koma frá starfsemi erlendis. Í viðtali við Þorgeir Baldursson, forstjóra Kvosar, kemur fram að arðsemismarkmið félagsins hafa náðst á nokkrum sviðum en öðrum ekki, sem hann segir viðbúið á umbreytingaári.

Félagið er nú með fótfestu í þremur löndum, Póllandi, Búlgaríu og Bandaríkjunum. Að sögn Þorgeirs verður megináherslan lögð á efla starfsemi félagsins í SA-Evrópu og þar vinnur félagið nú þegar að nokkrum fyrirtækjaverkefnum. Kvos er að skoða frekari rekstur í Rúmeníu auk þess sem það hefur beint sjónum sínum að Búlgaríu og Úkraínu og þar er það að skoða ýmis fyrirtækjaverkefni og telur Þorgeir að ekki sé ólíklegt að eitthvað komi úr því innan skamms.

"Það má segja að við séum að grípa þau tækifæri sem berast upp í hendur okkar og samstarf okkar í Póllandi hefur hlaðið dálítið utan á sig og fært okkur fleiri verkefni," segir Þorgeir í viðtalinu. Hann neitar því hins vegar að þær breytingar sem hafa verið gerðar á félaginu undanfarið séu til þess gerðar til að stuðla að skráningu þess í Kauphöllin. Hann játar hins vegar að þær gætu gert slíkt auðveldara í framtíðinni.

Ítarlegt viðtal er við Þorgeir Baldursson í Viðskiptablaðinu í dag.