Á meðal veigamikilla óvissuþátta í núverandi grunnspá Seðlabanka Íslands eru komandi kjarasamningar og alþjóðlegar efnahagshorfur. Þetta kemur fram í nýjasta riti Peningamála þar sem því er meðal annars lýst með svokölluðum fráviksdæmi hvaða áhrif það gæti haft á þjóðarbúið að launahækkanir verði meiri en grunnspá bankans geri ráð fyrir í dag.

Þar kemur fram að undanfarna tólf mánuði hafi nafnlaun hækkað um 8,1% miðað við launavísitölu Hagstofunnar, en raunlaun hafi einnig hækkað mikið á sama tímbili þó hægt hafi töluvert á hækkun þeirra undanfarna mánuði í takt við aukna verðbólgu. Þá er bent á að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi tekið að dragast saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Hækkunin langt umfram vöxt framleiðni vinnuafls

„Þessi mikla hækkun launa er langt umfram vöxt framleiðni vinnuaflsins og það sem þekkist meðal annarra OECD-ríkja.“ Það skýrist að hluta til af innlendum efnahagsumsvifum, viðskiptakjarabata og sterkri samningsstöðu innlendrar verkalýðshreyfingar sem hafi gert henni kleift að knýja fram launahækkanir óháð stöðu hagsveiflunnar.

Þá segir að það sé „áhugavert hve víðtæk aðild að verkalýðsfélögum er hér á landi og að hún hafi ekki minnkað undanfarna áratugi líkt og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum og öðrum OECD-ríkjum. Í þessum löndum hefur miðstýring kjarasamninga einnig minnkað mikið og dregið hefur verulega úr aðkomu hins opinbera að samningagerðinni.“

Sérstakt fráviksdæmi

Búast megi við því að raunlaun hafi hækkað minna en lagt hafi verið upp með við undirritun kjarasamninga í mars 2019, enda hafi verðbólga verið langt umfram spár. Í því samhengi virðist ummæli forystumanna verkalýðsfélaga undanfarið snúa að því að vinna upp þá hækkun raunlauna sem upp á vanti. „Til að kanna möguleg áhrif þessa er notast við DYNIMO-líkan Seðlabankans. Gert er ráð fyrir að nafnlaun hækki liðlega 5 prósentum meira á næsta ári í þeirri viðleitni að endurheimta sambærilegt raunlaunastig og var í upphafi ársins, áður en verðbólgan tók að grafa undan kaupmætti.“

Það fæli í sér að laun hækkuðu um 11% milli ársmeðaltala á næsta ári en í grunnspá bankans sé gert ráð fyrir 6% hækkun. Það hefði í för með sér að jaðarkostnaður fyrirtækja myndi hækka og fyrirtækin sigla í kjölfar þess með því ganga á hagnaðarhlutdeild sína, hagræða í rekstri og hækka afurðaverð sitt. „Lakari atvinnuhorfur vega á móti meiri hækkun nafnlauna og við bætast neikvæð áhrif hærri vaxta og aukinnar verðbólgu.“ Þannig myndi hægja á einkaneyslu og hærri vextir þrýsta gengi krónunnar upp.

Hagvaxtarhorfur næsta árs og ársins 2024 myndu versna, en hagvöxtur yrði þá 1,75% minni á næsta ári en í grunnspá bankans. „Hagvöxtur yrði þá sá minnsti hér á landi síðan árið 2002 ef frá eru talin samdráttarárin í kjölfar fjármálakreppunnar og heimsfaraldursins.“