*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 9. október 2019 10:40

Offramboð og lækkun nafnverðs gætu fylgt

Lánastofnanir þurfi að búa sig undir hægari sölu nýbygginga, hærri veðsetningarhlutföll og aukin útlánatöp.

Ritstjórn
Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarbankastjóri Seðlbanka Íslands, ásamt Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra.
Gígja Einars

„Samdráttur í ferðaþjónustu hefur ásamt öðrum þáttum stuðlað að því að hægt hefur verulega á hækkun íbúðarverðs.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í formála aðstoðarseðlabankastjóra,  Rannveigar Sigurðardóttur, í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands birti í dag. 

„Tengsl eru á milli stöðu ferðaþjónustu og áhættu á íbúðar- og atvinnuhúsnæðismörkuðum. Samdráttur í ferðaþjónustu hefur ásamt öðrum þáttum stuðlað að því að hægt hefur verulega á hækkun íbúðarverðs. Jafnframt eru vísbendingar um að velta dragist saman og að sölutími hafi lengst en á sama tíma hafi framboð aukist. Samhliða fjölgun nýbygginga hefur dregið úr skammtímaútleigu íbúða á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna. Offramboð og lækkun nafnverðs gætu fylgt í kjölfarið. Í því felst áhætta fyrir fjármálakerfið. Lánastofnanir þurfa að búa sig undir að nýbyggingar seljist hægt, veðsetningarhlutföll fasteignaveðlána hækki og útlánatöp vegna íbúðarhúsnæðis aukist,“ segir enn fremur í formála Rannveigar. 

Fjármálakerfið býr yfir talsverðum viðnámsþrótti til að mæta þessum viðsnúningi að mati Rannveigar. Eiginfjárstaða bankanna sé yfir kröfur Fjármálaeftirlitsins og eins sé lausafjárstaða þeirra umfram kröfur Seðlabankans. Þá hafi bankarnir staðist álagspróf Seðlabankans. 

Hins vegar beri að hafa í huga að sviðsmyndin í álagsprófun spanni ekki alla þætti, t.d. Smitáhrif og viðhorfsbreytingar, og því gæti áhrif sviðsmyndarinnar verið vanmetin. Þá verði svigrúm bankanna til að inna af hendi arðgreiðslur umfram þær sem rekja megi til hagnaðar lítið á næstunni án breytinga á samsetningu og stærð efnahagsreikninga þeirra. 

„Í ár hefur virðisbreyting útlána verið sá rekstrarþáttur sem haft hefur mest áhrif á breytingu á afkomu banka frá fyrra ári. Útlit er fyrir að virðisbreytingar muni hafa talsverð neikvæð áhrif á rekstrarafkomu þeirra í ár en undanfarin ár hafa áhrif virðisbreytinga verið jákvæð. Áhrif áfalla ársins á virðisrýrnun eru enn að einhverju leyti óviss. Lækkandi vaxtarstig gæti einnig haft áhrif á rekstrarhorfur bankanna. Til þess að miðla breytingum á vöxtum Seðlabankans gætu þeir þurft að draga úr vaxtamun þar sem vextir á óbundnum innlánum eru nálægt núlli og því takmarkað svigrúm til að miðla frekari vaxtalækkunum á skuldahliðina. Minni vaxtamunur myndi að öðru óbreyttu draga úr hagnaði þeirra og arðsemi,“ segir ennfremur í inngangi að Fjármálastöðugleika.