Af forystufólki í íslenskum stjórnmálum er Ólafur Ragnar Grímsson forseti sá sem fólk ber mest traust til, samkvæmt nýrri könnun MMR . Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hins vegar sá stjórnmálamaður sem fólk ber minnst traust til.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 58,6% bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Traust til Ólafs Ragnars hefur aukist stöðugt frá árinu 2009 þegar það mældist 22,9%. Þá sögðust 24,0% bera lítið traust til forsetans.

Tveir stjórnmálamenn til viðbótar eru í þeirri stöðu að fleiri bera mikið traust til þeirra en lítið. Um 47,1% sögðust bera mikið traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, en 26,5% sögðust bera lítið traust til hennar. Þá sögðust 44,4% bera mikið traust til Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, en 28,3% sögðust bera lítið traust til hennar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, nýtur trausts 28,2%. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, nýtur trausts 25,1%, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, nýtur trausts 21,8% og Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Hreyfingarinnar nýtur trausts 18,8%. Í tveimur neðstu sætunum eru þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem aðeins nýtur trausts 17,9% þeirra sem tóku afstöðu, en neðstur er Bjarni Benediktsson sem aðeins nýtur trausts 14,6% þeirra sem tóku afstöðu í könnninni.

Traust til stjórnmálamanna.
Traust til stjórnmálamanna.