Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir fyrirtækið vonast til að sala áfengis verði leyfð í stórmörkuðum. Samhliða því hvetur Ölgerðin stjórnvöld að leyfa áfengisauglýsingar.

„Við erum í raun og veru mjög spennt fyrir þeirri breytingu þegar hún gerist – viljum þá taka skrefið að fullu,“ sagði Andri Þór á fjárfestakynningu fyrir skráningu Ölgerðarinnar fyrr í dag, spurður um mögulegt afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis. „Við erum vön að keppa á stórmörkuðum og bíðum bara spennt eftir samkeppninni.“

Í skráningarlýsingu Ölgerðarinnar kemur fram að mögulegar breytingar á áfengislöggjöfinni gætu haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins. Ölgerðin er með sterka markaðshlutdeild í verslunum ÁTVR. Þannig var 37% af öllum seldum bjór í verslunum ríkisins frá Ölgerðinni, 33% af sterku víni, 15% af léttvíni og 61% af víngosi.

Sjá einnig: Breytt áfengislöggjöf hefði töluverð áhrif á Ölgerðina

Andri sagði að það verði að koma í ljós hvernig málið þróast og benti á að fyrir liggur frumvarp um að heimila vefverslunum að selja áfengi. Frumvarpinu, sem Hildur Sverrisdóttir er í forsvari fyrir, er ætlað að jafna stöðu innlendra og erlendra vefverslana hvað varðar sölu áfengis.

Á fjárfestafundinum var einnig spurt hver væru vænt áhrif á dreifingarkostnað Ölgerðarinnar ef áfengi yrði selt í matvöruverslunum. „Jaðarkostnaðurinn við það er ekki teljandi vegna þess að við erum að fara á þessa staði alla hvort sem er,“ svaraði Andri.