Afkoma Olíuverzlunar Íslands hf. var neikvæð á síðasta ári um 105 milljónir króna. Á árinu komu nýir eigendur að félaginu samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu sem fól meðal annars í sér endurfjármögnun skulda og hlutafjáraukningu.

Sjávarútvegsfélögin Samherji og Fisk Seafood eignuðust 37,5% hlut hvor. Einar Benediktsson og Gísli Baldur Garðarsson halda áfram um 12,5% hlut hvor, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Vörusala samstæðunnar á síðasta ári nam alls ríflega 37 milljörðum króna samanborið við 33,3 milljarða árið áður.

Kostnaður seldra vara var um 30,8 milljarðar. Eignir félagsins námu um áramót alls um 15,6 milljörðum og skuldir voru 13,7 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var 14,1% en var 10,8% árið áður.