Á þessu ári hefur kórónuveirufaraldurinn og samdráttur í ferðaþjónustunni sem honum hefur fylgt haft töluverð áhrif á afkomu stærstu olíufélaganna; Skeljungs, N1, Olís og Atlantsolíu en þau hafa öll verið rekin með hagnaði síðustu ár. Yfirvofandi orkuskipti auk fækkun ferðamanna munu líklega leiða til frekari breytinga á næstu árum.

Ekki er ljóst hve hratt bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu mun fækka, og því hversu hratt rekstraraðilar þurfa að bregðast við. Að auki ríkir óvissa um hve hratt landsmenn munu endurnýja bílaflota sinn og hvert hlutverk olíufélaganna verður þegar hleðslustöðvar taka við af bensínstöðvum.

Bregðast við breyttum tímum

Vænta má að rekstur olíufélaga breytist varanlega sökum orkuskipta og sjá má ólík viðbrögð félaganna vegna komandi tíma. N1 hefur til að mynda nýlega herjað á raforkumarkaðinn hérlendis með kaupum á Íslenskri Orkumiðlun fyrir um 850 milljónir króna. Félagið fer með um 7% hlutdeild í raforkusölu á Íslandi og eru kaupin til marks um stefnubreytingu félagsins.

„Í framtíðinni munum við líklegast koma til með að selja rafmagn á bensínstöðvum okkar eins og í Borgarnesi og Staðarskála. Ég tel samt að þróunin verði önnur á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk hleður heima hjá sér. Því tel ég að allar stöðvar inni í íbúðabyggð muni koma til með að hverfa þótt þær verði enn við aðalbrautir eins og Bíldshöfða og Ártúnshöfða,“ segir Eggert.

N1 er í eigu Festi en Olís er dótturfélag haga. Skeljungur hefur nýverið keypt fjórðungshlut í Brauð & Co. og Gló en félagið átti fyrir Basko, sem er meðal annars rekstraraðili 10-11 og Kvikk. Atlantsolía hefur ekki myndað sér sess á smásölumarkaði á Íslandi og forstjóri félagsins segir að félagið muni ekki taka stefnubreytingu í sölu á öðrum orkugjöfum.

Orkuskiptin gætu tekið áratugi

Eggert treystir sér ekki til að fullyrða hversu langan tíma það mun taka N1 að skipts úr sölu eldsneytis yfir í að selja rafmagn alfarið en nefnir þó allt frá 10-30 ár. Komandi efnahagssamdráttur muni meðal annars lengja tímann enda dragist sala nýrra bíla saman og bílafloti landsmanna því endurnýjast hægar en ella.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir ljóst að orkuskipti séu í vændum en slíkt ferli taki langan tíma. „Við höfum tekið eftir því að nýskráning bíla tekur mið af því að það eru orkuskipti í sjóndeildarhringnum og það er mjög heillandi hugmynd að rafbílavæða Ísland. Hins vegar tekur þetta góðan tíma og tel ég að næstu tvo áratugi muni jarðefniseldsneyti vera stærsti hluti þeirra orkugjafa sem við munum nota,“ segir Jón.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .