Ekki ætti að hafa farið framhjá mörgum að heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið í miklum hækkunarfasa en síðastliðna tólf mánuði hefur olíuverð hækkað umtalsvert. Hækkandi olíuverð hefur þó ekki haft mikil áhrif á hagkerfi heimsins þrátt fyrir að olíuverð hafi verið í kringum 50 dollara í töluverðan tíma en framvirkt olíuverð hefur frá því í október á síðasta ári til að mynda tvisvar sinnum farið yfir 58 dollara á mörkuðum í New York. Brent hráolíuverð hefur einnig verið í miklum hækkunarfasa og hefur einnig verið í kringum 50 dollara á fat í þónokkurn tíma segir í Vegvísi Landsbankans.

Í könnun vefútgáfu Wall Street Journal (www.wsj.com) sem framkvæmd var síðastliðið sumar taldi stór hluti þátttakenda að olíuverð á bilinu 50-60 dollarar myndi hafa umtalsverð neikvæð áhrif á hagvöxt og jafnvel leiða til heimskreppu. Í Vegvísi Landsbankans er bent á að þessar spár hafi ekki gengið eftir og því ljóst að hagkerfi heimsins ráða við svo hátt olíuverð. Í svipaðri könnun sem framkvæmd var af WSJ nýlega töldu þátttakendur hins vegar að olíuverð þyrfti að fara í 80 dollara til þess að geta leitt til kreppu. Verði olíuverð áfram hátt eða haldi það jafnvel áfram að hækka má hins vegar gera ráð fyrir að það hafi áhrif til lækkunar hagvaxtar en ekki ekki er búist við að olíuverð orsaki kreppu fyrr en það nálgast 80 dollara.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.