Heimsmarkaðsverð á olíu hefur aldrei verið hærra í krónum talið. Tunnan af Brent-olíu kostar nú 123,8 dali, sem gerir 15.400 krónur. Um áramótin stóð tunnan í 13.200 krónum og nemur hækkunin tæpum 17% í króngum talið síðan þá. Til samanburðar kostaði tunnan 10.800 krónur um þarsíðustu áramót sem er 42% hækkun á rúmu ári. Algengt lítraverð á 95 oktana eldsneyti kostar í sjálfsafgreiðslu hér 252,9 krónur.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag verðþróunina skýrast af vaxandi spennu á milli Írans og vesturveldanna sem hefur verið helstu drifkraftur snarprar hækkunar á olíuverði, sem aftur má rekja til þeirrar ákvörðunar Evrópusambandsins seint í janúar síðastliðnum að leggja bann á innflutning á olíu frá Íran frá og með næsta sumri. Aðrir stórir kaupendur olíu frá Íran, t.d. Japan og Kína, hafa einnig áform um að snúa sér annað með hluta olíukaupa sinna, sem eykur við verðþrýstinginn á Brent-olíuna.