OMX hefur keypt Findata AB af Bisnode AB, en Findata er leiðandi upplýsingaveita um norræn fyrirtæki og býður upp á sérsniðnar vísitölur segir í frétt til Kauphallarinnar.

Findata er með yfirgripsmesta gagnagrunninn á sviði fjármálaupplýsinga á Norðurlöndunum sem inniheldur m.a. fyrirtækjaaðgerðir, fjárhagsuppgjör, skráningarskjöl, fjármálasögu, sérsniðnar vísitölur, viðburði og dagatalsupplýsingar. Sérsniðnu vísitölurnar eru fyrst og fremst notaðar af kauphallaraðilum Nordic Exchange.

"Upplýsingaþjónusta OMX er í senn arðbær og vaxandi hluti starfseminnar og eykur bæði sýnileika og gagnsæi félaga í Nordic Exchange. Hún einfaldar þar með einnig viðskipti og stuðlar að auknum seljanleika. Með því að eignast Findata getum við þróað upplýsingaþjónustuna enn frekar á þann veg að bæði Nordic Exchange og viðskiptavinirnir njóti góðs af,? segir Hans-Ole Jochumsen, forstjóri upplýsingaþjónustu og nýrra markaða innan OMX í tilkynningunni.

Findata er staðsett í Stokkhólmi og starfsmenn eru sjö að tölu. Góður hagnaður var af resktri ársins 2006 en tekjurnar voru um 17 milljónir sænskra króna (SEK). OMX greiðir 43,5 milljónir SEK sem innborgun en skilyrði eru um aukagreiðslu sem nemur allt að 35 milljónum SEK.