ORA, sem er vel þekkt fyrir framleiðslu á síldarvörum, skoðar hvort hægt sé að framleiða makríl til manneldis fyrir markaðinn hér heima. Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri ORA, segir að slík framleiðsla sé þó flókin. Mun flóknari en síldarframleiðslan.

„Við erum að skoða þetta, hvort það er hægt að sjóða makríl eitthvað niður í dósir,“ segir hann í samtali við VB.is. Hann segir að makríll sé mjög viðkvæm vara og það þurfti töluverða sérþekkingu til að framleiða hann. Leifur segir að eftir því sem hann best viti sé makríllinn ekki að hverfa úr íslenskri lögsögu, það sé frekar að honum sé að fjölga. „Þannig að tækifærin eru þarna klárlega,“ segir hann.

Hann segir að salan þurfi að vera vel undirbúin og þurfi að fara fram um leið og veiðitímabilið stendur yfir. „Það er mjög erfitt að taka hann frosinn og ætla að þíða hann,“ segir Leifur. Ástæðan sé sú að makríllinn sé svo fljótur að þrána.