Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikkja, segir stjórnvöld staðráðin í að halda í evruna, annað væri fásinna.

Ítalska dagblaðið Il Sole 24 Ore hefur eftir forsætisráðherranum að það geti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir Grikki kjósi þeir að kasta evrunni fyrir róða og taka drökmuna upp á ný sem þjóðargjaldmiðil eins og stjórnarandstaðan vilji.

Fleiri hafa talað fyrir drökmunni en gríska stjórnarandstaðan, þar á meðal er dr. Martin Feldstein, prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, sem hélt erind á vegum Landsbankans um stöðu og horfur í efnahagsmálum í síðasta mánuði.

Papademos segir gjaldmiðlaskiptin geta leitt til upplausnarástands, gengið muni hrynja, verðbólga rjúki upp úr öllu valdi, rót koma á vaxtastig, atvinnuleysi aukast og fjármálakerfið í raun fara á hliðina.

Ójöfnuðurinn felst í því að Grikkir sem búa erlendis munu hafa betri stöðu en Grikkir sem búa í heimalandinu, að sögn forsætisráðherrans.