Hlutabréfaverð Origo hefur hækkað um meira en 20% í fyrstu viðskiptum dagsins. Gengi upplýsingatæknifyrirtækisins stendur í 86 krónum þegar fréttin er skrifuð en stóð í 70 krónum við lokun markaða í gær.

Origo tilkynnti í gærkvöldi um samkomulag um skuldbindandi kaupsamning um sölu á 40% hlut félagsins í Tempo til bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital á 195 milljónir dala, eða sem nemur 27,8 milljörðum króna. Söluhagnaður Origo er áætlaður um 156 milljónir dala eða um 22,2 milljarðar króna. Til samanburðar nam markaðsvirði Origo 30,2 milljörðum við lokun Kauphallarinnar í gær.

Sjá einnig: Origo selur hlut sinn í Tempo fyrir 28 milljarða

„Ljóst er að salan á Tempo mun hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo þar sem lausafjárstaða styrkist og geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð,“ segir í tilkynningunni sem Origo sendi frá sér í gærkvöldi. Félagið mun gera grein fyrir viðskiptunum á uppgjörsfundi þann 31. október næstkomandi.