Orkustofnun hefur gefið grænt ljós á byggingu og rekstur Suðurnesjalínu 2. Hún er rúmlega 32 kílómetra löng og verður öll lögð sem loftlína. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Orkustofnun tók undir þau rök Landsnets að jarðstrengur væri óhagkvæmari en loftlína og í leyfinu segir að hvorki umhverfissjónarmið né annað réttlæti kostnaðaraukann sem myndi fylgja því að leggja línuna í jörðu.

Í niðurstöðum Orkustofnunar kemur fram að framkvæmdin hafi sætt mati á umhverfisáhrifum, verið útfærð í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélög og uppfylli að öðru leyti þau skilyrði laga sem krafist er.  Ekki tókst að semja um 25% landsvæðis sem línan fer um og hefur Landsnet óskað eftir heimild frá iðnaðarráðuneytinu um eignarnám þeirra jarða, segir í Fréttablaðinu.