Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, hefur staðfest við Viðskiptablaðið að félagið hafi tilkynnt til stéttarfélaga að hópuppsagnir séu í vændum. Hann vildi ekki tjá sig um hversu mörgum yrði sagt upp.

Fréttastofa RÚV greindi frá því að áætlað sé að um 80 starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái uppsagnabréf á næstunni. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verða uppsagnarbréf send til starfsmanna fyrir næstu mánaðarmót. Að öðru leyti liggi endanleg tala ekki fyrir né hvenær bréfin verði nákvæmlega send.

Um síðustu áramót voru starfsmenn Orkuveitunnar tæplega 580. Um það bil sjötta hverjum starfsmanni verður því sagt upp ef 80 starfsmenn fá uppsagnarbréf.