Ólafur F. Magnússon nýkjörinn borgarstjóri sagði rétt í þessu á borgarstjórnarfundi að orrahríðin í stjórnmálum gæti stundum verið hörð. Fundur er hafinn að nýju eftir að honum hafði verið frestað vegna frammíkalla gesta á pöllum.

Ólafur sagði í ræðu sinni, eftir að forseti fundarins hafði lýst því yfir að hann væri rétt kjörinn borgarstjóri, að hann myndi sem borgarstjóri vinna að því að gera borgina að enn betri borg.

„Orrahríðin í stjórnmálum getur stundum verið hörð,“ sagði hann og bætti því við að því hefði hann fengið að kynnast á síðustu dögum eða eftir að nýr meirihluti hefði verið myndaður. Ólafur sagði að mikið hefði gengið á og að stór orð hefðu verið látin falla. Slíkur tilfinningahiti væri skiljanlegur. „Ég lít ekki svo á að neitt af því sem gengið hefur á undanfarna daga eigi eftir að spilla fyrir samstarfinu í borgarstjórn.“

Eftir ræðu Ólafs tók Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, til máls og lýsti því yfir að hann myndi hætta í borgarstjórn af persónulegum ástæðum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, þakkaði honum samstarfið. Hún kvaðst halda að stjórnmálin myndu sakna hans. Hann væri kraftmikill maður af sinni kynslóð.

Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknar, tekur sæti Björns Inga og verður þar með oddviti framsóknarmanna í borginni.