Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, hefur selt hlut sinn í bankanum til FL Group.

Fjárfestingafélagið Brekka ehf. átti 1,45% hlut í Straumi Burðarás og féll sala á honum inn í þau miklu viðskipti sem urðu með bréf félagsins í gær.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafði Fjármálaeftirlitið spurst fyrir um það hver færi með atkvæði Fjárfestingafélagsins Brekku í kjölfar þess að hann hætti hjá félaginu.

Straumur Burðarás skilaði tæplega 27 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Það var besta ár í sögu bankans en árið 2005 einkenndist af miklum vexti á öllum sviðum starfseminnar. Eigið fé jókst um 82 milljarða króna á árinu og heildareignir samstæðunnar um 170 milljarða.

Hagnaður bankans eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 12,6 milljörðum króna til samanburðar við tæplega 500 milljóna króna hagnað árið áður.