Uppsveiflan nýtist þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í Kauphöllinni en fá óskráð fyrirtæki hafa sótt fé til frekari vaxtar með skráningu í Kauphöllina segir í Hálffimmfréttum KB banka 20. október. Greiningardeild KB banka telur hættu á að núverandi framboð á hlutabréfum ýti undir þær lækkanir sem verið hafa að undanförnu og telur því meiri ástæðu til varúðar en áður. Heildarframboð nýs hlutafjár nemur 266 milljörðum króna en inni í þeirri tölu eru einnig fyrirhuguð hlutafjárútboð. Markaðsvirði nýrra fyrirtækja á markaði nemur hins vegar aðeins fimm milljörðum en Medcare Flaga og Fiskeldi Eyjafjarðar eru einu félögin sem hafa verið skráð á síðustu tveimur árum.

Í Hálffimmfréttum segir að fjármálafyrirtækin hafi helst sótt sér fé til frekari vaxtar í Kauphöllinni. Bankar hafa selt 99 milljarða í hlutafé og þar af hefur KB banki selt mest eða um 92 milljarða. Íslandsbanki ætlar einnig að auka hlutafé sitt um allt að 35 milljarða á næstunni.

Í Hálffimmfréttum segir einnig að til að meta áhrif hlutafjárhækkunar á markaðinn sé nauðsynlegt að greina á milli hlutafjárhækkana sem notaðar eru til kaupa á öðrum hlutabréfum og þeirra sem seld eru fyrir peninga. Framundan sé mikil útgáfa á nýju hlutafé og það á eftir að koma í ljós hvort að markaðurinn geti tekið við þessu öllu. Aðgangur að fjármagni á Íslandi hafi verið mjög greiður og hafi það án nokkurs vafa átt þátt í að ýta undir hækkun hlutabréfaverðs, sömuleiðis hafi mjög mikið peningamang verið í umferð sem hafi verið að leita hagstæðra fjárfestingakosta. Á undanförnum árum hafi hækkun á hlutabréfaverði fylgst vaxandi peningamagni en sjá má þessa þróun á mynd hér til hliðar. Fram til þessa virðist fjármagnið að miklu leyti verið notað í spákaupmennsku, það geti hins vegar ekki verið endastöð fyrir fjármagn og nú virðist að peningarnir leiti fremur í rekstur sem vonast er til að geta skilað viðvarandi arðsemi. Spurningin sé hins vegar sú hvað gerist þegar jafn mikið og snöggt framboð verður á verðbréfum eins og nú virðist ætla að vera.