Stoðtækjafyrirtækið Össur tilkynnti í dag að rekstur fyrirtækisins yrði kolefnisjafnaður nú árið 2021, á fimmtugasta afmælisári fyrirtækisins.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að fyrirtækið hafi undanfarið unnið að því að kolefnisjafna rekstur sinn og að markmiðinu verði náð á þessu ári. Á árinu mun fyrirtækið þannig kolefnisjafna orku- og eldsneytisnotkun sína, sorplosun, viðskiptaferðalög, vöruflutninga og rafmagnsnotkun birgja.

Jöfnunin nær þannig til beinnar og óbeinnar losunar í flokkum 1 og 2 samkvæmt staðli Greenhouse Gas Protocole, en einnig að hluta til losunar í flokki 3.

„Okkur er umhugað um umhverfið og við tökum ábyrgð okkar alvarlega. Við höfum unnið ötullega að því að ná góðri yfirsýn yfir kolefnisspor fyrirtækisins og erum stolt af því að ná þeim árangri að kolefnisjafna reksturinn á 50 ára afmæli fyrirtækisins," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í tilkynningu.

Í tilkynningunni kemur fram að Össur muni halda áfram að draga úr losun, auka skilvirkni í orkunotkun, nýta aðeins rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum og kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur með stuðningi við verkefni sem draga úr losun gróðurhúsa lofttegunda, til að ná kolefnishlutleysi árið 2021.

„Össur heldur áfram að einbeita sér að því að styðja við aukin lífsgæði allra, ekki aðeins með framúrskarandi vörum og þjónustu, heldur einnig með framlagi okkar til samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærrar þróunar. Eins miklu og við höfum þegar áorkað undanfarin fimmtíu ár, viljum við leggja enn frekar af mörkum um leið og við höldum áfram að hjálpa fólki að lifa lífi án takmarkana," segir Jón í tilkynningunni.