Í nýjum pistli á heimasíðu sinni veltir Össur Skarpheðinssn iðnaðarráðherra fyrir sér vaxandi umburðarlyndi fyrir ofbeldi sem en telur sig greina hér á landi.

,,Nú þegar eru dæmi um breytt siðgildi í hinu íslenska samfélagi. Þau birtast til dæmis með skýrum hætti í vaxandi umburðarlyndi fyrir ofbeldi í orði og verki. Þeir sem standa fyrir mótmælum gegn ástandinu gera það ekki lengur eingöngu með orðum eða friðsamlegri tjáningu. Verið getur að brot á nokkrum rúðum, sundurskornir sjónvarpskaplar með tilheyrandi uppnámi í sálarlífi Sigmundar Ernis, og múrsteinn í höfuð lögreglumanns þyki ekkert tiltökumál. Lögreglumaðurinn sem fékk múrstein í sig er örugglega á öðru máli, og hið lýðræðislega samfélag hefur til þessa samsinnt honum. Borgaraleg óhlýðni er eitt, en ofbeldi sem meiðir og eyðileggur er allt annað," skrifar Össur.

Össur veltir einnig fyrir sér pistlaskrifum í Fréttablaðinu og hvort pistlahöfundur þar hafi hvatt til þess að kveikja í bíl með honum inanborðs! ,,Það er athyglisvert að sjá, hvernig viðhorfin til beitingar valds í tengslum við mótmælin gegn handhöfum framkvæmdavaldsins hafa þróast. Valdbeitingin, sem í upphafi var aðallega varin af nafnleysingjum á netinu fær nú skjól hjá stöku stjórnmálamanni, góðborgari hvetur til meira ofbeldis á heimasíðu sinni, og í grein í Fréttablaðinu í dag eftir höfund sem fjölskyldumiðillinn skilgreinir í kynningu sem “málsmetandi einstakling” er orðalag sem einstaklega gott hjartalag þarf til að túlka öðru vísi en sem beina hvatningu til ofbeldis."

Hér er Össur að ræða um pistil Eiríks Guðmundssonar, umsjónarmans Víðsjár: ,,Ég hugsa að það sé til marks um breytt siðgildi, að höfundinum nægði ekki að setja fram í einkar vel skrifuðum texta í útbreiddasta blaði landsins skoðun sína á því að karlar einsog ég taki pokann sinn. Fari svo að ég geri það ekki af eigin dáðum þá bætti umsjónarmaður Víðsjár til allrar hamingju við eftirfarandi leiðbeiningu til lesenda fjölskyldublaðsins um hvað “við hin” ætlum að gera til að hjálpa mönnum einsog mér til að rýma stólinn: “Ef við þurfum að brjóta rúður skulum við gera það. Ef við þurfum að kveikja í bílum skulum við gera það.”

Nú veit ég ekki hvort umsjónarmaður Víðsjár gerir ráð fyrir að ég sé í eða utan bílsins þegar hann kveikir í honum. Myndi sú vitneskja þó örugglega “hafa áhrif til frambúðar” – svo vísað sé í kynninguna – að minnsta kosti fyrir mig. Ugglaust upplýsir fjölskylduritstjórinn Þorsteinn Pálsson mig um það í leiðaranum sem hann skrifar senn til að leggja út af greinum “málsmetandi einstaklinga” sem Fréttablaðið svo kallar."