Dæmi eru um um að ótryggðir bílaleigubílar hafi verið leigðir til ferðamanna. „Þótt það heyri til undantekninga er þetta áhyggjuefni,“ segir Jón Sveinsson, sérfræðingur hjá tryggingafélaginu VÍS.

Fram kemur í úttekt í Viðskiptablaðinu að 140 bílaleigur eru með starfsleyfi og hefur þeim fjölgað um 120% á síðastliðnum sex árum. Í úttektinni er m.a. haft eftir forstjóra Bílaleigu Akureyrar að margar af nýju bílaleigunum leigi út mjög gamla og illa útbúna bíla, jafnvel ótryggða og óskoðaða.

Vill sjá hertari viðurlög

Um þetta segir Jón hjá VÍS:

„Við bindum vonir við að ný löggjöf skerpi á ör­yggiskröfum gagnvart bílaleigum og feli í sér viðurlög við brotum. Mikilvægast er þó að efla reglubundið eftirlit með rekstri og gæðamálum bílaleiga en því hefur verið mjög ábótavant. Við þetta má svo bæta að vegna einstakra að­ stæðna hérlendis er mikilvægt að huga stöðugt að öryggismálum í starfsemi bílaleiga og hvernig forvarnafræðslu erlendra ferðamanna er háttað. Liður í því að skapa slíka umræðu er opinn fundur fyrir rekstrarleyfishafa bílaleiga sem haldinn verður á Flughótelinu í Reykjanesbæ 29. apríl. Þar verður meðal annars fjallað um úttekt sem VÍS gerði á öryggismálum fjölda bílaleiga síðast­ liðið haust, fulltrúi Samgöngustofu verður með erindi um öryggi ferðamanna og frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja og fulltrúi bílaleigu fer yfir þeirra sýn til öryggismála,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .