Atvinnuleysi á Evrusvæðinu hefur aldrei verið eins hátt og í nóvember síðastliðnum. Atvinnuleysi mælist nú 11,8% og er áætlað að um 18,8 milljónir manna leiti nú starfa á svæðinu.

Fjallað er um málið á vef dagblaðsins The Telegraph þar sem haft er eftir Laszlo Andor, embættismanni í velferðarmálum Evrópusambandsins, að svo virðist sem gjá á milli ákveðinna landa sambandsins fari enn vaxandi. Ákveðin lönd virðist föst á niðurleið þar sem hagvöxtur minni, atvinnuleysi aukist og tekjur heimila dragist saman. Á sama tíma minnki velferðarkerfi yfirvalda í þessum löndum. Andor segist óttast að hinn vaxandi hópur langtíma-atvinnulausra endi í „fátæktargildru“ fari efnahagslífið ekki að taka við sér.