Otto B. Arnar ehf.  hefur ákveðið að færa út kvíarnar og feta sig inn í viðskipti með tölvuprentara og fjölnotatæki og hefur því gert samning við OKI í Danmörku um að gerast söluaðili OKI tækja á Íslandi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að ætlunin er í fyrstu að kynna nokkur mismunandi tæki sem eru reyndar aðeins lítill hluti af breiðri línu tækja framleidda af OKI í Japan.

Ætlunin er að bæta smám saman  við fyrirliggjandi vörulínu OKI tækja. Fyrirtækið mun einnig annast þjónustu á tækjum sem það selur, m.a. með sölu á almennum rekstrarvörum þeim tengdum. OKI hefur verið þekkt vörumerki hérlendis í áraraðir segir í tilkynningu.

Meðal annarra þekktra vörumerkja sem fyrirtækið selur vörur frá má nefna Datacard, sem framleiðir plastkortaprentara og lausnir fyrir kortaútgáfu, Fellowes, en þaðan koma skjalainnbindivélar og plöstunarvélar fyrir almenna skrifstofunotkun, Martin Yale með pappírstætara, bæði fyrir skrifstofur og iðnaðarnotkun, Pitney Bowes með vélbúnað fyrir meðhöndlun póstsendinga og TAG Systems fyrir gæðaprentun á plastkortum, hvort heldur með eða án segulrandar eða örgjörva.