*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 13. febrúar 2020 16:13

Óveður lita afkomu TM

Tjón í tengslum við óveður rýrir afkomu TM. Hagnaðurinn félagsins nær þrefaldast milli ára.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Haraldur Guðjónsson

Tjón vegna óveðra sem gengið hafa yfir landið að undanförnu lita uppgjör TM. Á móti batnaði afkoma af fjárfestingum en 10,1% arðsemi var af fjárfestingum félagsins á síðasta ári. Alls hagnaðist TM um 1,9 milljarða króna á síðasta ári miðað við 700 milljón króna hagnað árið 2018.

Heilt yfir var árið 2019 nokkuð gott og batnar afkoma TM verulega milli ára. Jafnvægið milli vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi er þó ekki nógu gott. Ávöxtun fjárfestingaeigna var 10,1% á meðan samsett hlutfall var 101,9%. Væntingar um samsett hlutfall undir 100% urðu að engu þegar hvort tveggja stærri tjón og óveður settu strik í reikninginn á fjórða ársfjórðungi,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í uppgjörstilkynningu.

Vont veður en hærri ávöxtun

Framlegð af vátryggingum var neikvæð um 365 milljónir á fjórða ársfjórðungi 2019, og neikvæð um 308 milljónir króna fyrir 2019 árið í heild miðað við 609 milljóna neikvæða framlegð árið 2018. Þá er búist við að framlegð af vátryggingum verði einnig neikvæð á fyrsta ársfjórðungi eða um 239 milljónir króna. Það sem eftir lifir þessa árs 2020 áframlegð af vátryggingum í heild að vera jákvæð um 324 milljónir króna. Samsett hlutfall á fjórða ársfjórðungi 2019 var 109% á fjórða ársfjórðungi og búist er við að það verði 106% á fyrsta ársfjórðungi 2020 en 98% á öllu árinu 2020 miðað við 101,9% árið 2019.

Ávöxtun fjáreigna batnaði milli árann 2018 og 2019 úr 6,6% í 10,1%. Áætlun ársins gerir ráð fyrir 7,7% ávöxtun á þessu ári. „Mjög góð afkoma var af óskráðum hlutabréfum, skráðum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum á fjórðungnum en ríkisskuldabréf skiluðu hins vegar slakri ávöxtun. Fjárfestingatekjur á fjórða ársfjórðungi voru töluvert umfram spá sem gerði ráð fyrir 396 m.kr. tekjum en þar munar mestu um afkomu skráðra og óskráðra hlutabréfa,“ segir í uppgjörskynningu félagsins.

Starfsmenn Lykils flytji í febrúar

Nýlega var gengið frá kaupum félagsins á Lykli. Kaupverðið nemur 9,6 milljörðum króna. Búist er við að hagnaður ársins 2020 nemi 2,4 milljörðum króna hjá sameinuðu félagi. Rekstrarhagræði félaganna af sameiningu þeirra er áætlað 200-300 milljónir króna á ári, en flytja á alla starfsemi Lykils á skrifstofur TM í Síðumúla fyrir lok febrúar.

„Á fjórða ársfjórðungi lauk TM viðræðum við Klakka ehf. um kaup á 100% hlutafjár í Lykli fjármögnun og kláruðust þau viðskipti 7. janúar sl. Lykill er því hluti af samstæðu TM frá þeim tíma og lánastarfsemi orðin þriðja stoðin undir starfsemi TM ásamt vátryggingastarfsemi og fjárfestingum. Með þessi tvö félög innan sömu samstæðu opnast fjölmörg spennandi tækifæri og grundvöllur skapast til að breikka framboð á vörum og þjónustu til viðskiptavina samstæðunnar,“ er haft eftir Sigurði í uppgjörinu.

Stikkorð: TM Lykill