Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar frestaði á fundi sínum í síðustu viku afgreiðslu á breytingu aðal- og deiliskipulags. Breytingin tengist uppbyggingu iðnaðar í sveitarfélaginu og þá sérstaklega byggingu sólakísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga.

„Afgreiðslu allra skipulagstillagna varðandi Grundartanga var frestað og það verður væntanlega aukafundur í sveitarstjórn 2. desember,“ segir Skúli Þórðarson sveitarstjóri í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta er stórt og viðamikið mál og ákveðnir hlutir sem við þurfum að ræða betur.“

Afgreiðslu málsins var meðalannars frestað vegna þess að sveitarstjórnin þarf að fá betri upplýsingar um hugsanlega flúormengun frá verksmiðju Silicor Materials.

„Það er þetta og eftir atvikum fleira sem menn vilja fá meira svigrúm til að ræða,“ segir Skúli.

90 milljarða framkvæmd

Sólarkísilverksmiðja Silicor Materials er risastór framkvæmd. Heildarfjárfestingin hljóðar upp á 750 milljónir dollara eða ríflega 90 milljarða króna. Ef verksmiðjan verður byggð mun hún skapa um 400 störf en á framkvæmdartímanum munu um 300 manns starfa á svæðinu. Áætlanir hafa gert ráð fyrir því að framleiðsla hefjist árið 2016 eða 2017. Framleiðsla sólarkísils, sem er 99,999% hreinn kísill, er orkufrek og þarf verksmiðjan um 85 Mw af orku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .