Árið 2011 var Dominos á Íslandi búið að vera í eigu Landsbankans í nokkurn tíma þegar ákveðið var að selja það í opnu söluferli. Birgir Þór Bieltvedt og og Birgir Örn Birgisson, sem eru frændur, og Högni Sigurðsson buðu hæst í fyrirtækið og eignuðust það í september 2011.

„Það var mjög vel að þessu útboði staðið af hálfu bankans og ég held að hann hafi verið mjög sáttur við verðið sem fékkst. Við tókum yfir töluverðar skuldir en greiddum einnig sanngjarnt verð fyrir hlutaféð ásamt því að setja aukið eigið fé inn í reksturinn. Við þurftum sannarlega að teygja okkur í þessu því við enduðum með að greiða mun hærra verð fyrir félagið en við höfðum hugsað okkur í upphafi. Við höfðum vissulega áhyggjur af því að við værum kannski að greiða of hátt verð fyrir fyrirtækið, en það má ekki gleyma því að Birgir Þór og Högni hafa verið lengi á þessum markaði og þekktu öll möguleg tækifæri sem voru til staðar. Þeir voru vissir um að hér væru sóknarfæri og möguleikar til vaxtar. Sjálfur hafði ég í raun minnstu reynsluna af þessum markaði, en ég hafði verið í farsímabransanum um árabil áður en ég kem til Íslands árið 2009,“ segir framkvæmdastjórinn Birgir.

Hann bendir á að óvissa um eignarhaldið hafi truflað fyrirtækið.

„Bankinn var klárlega að gera sitt besta og vildi fyrirtækinu vel og það sama átti við um stjórnendur Dominos, en þegar þú ert í þessu millibilsástandi og sala er yfirvofandi hefur það sín áhrif. Þegar salan var frágengin voru svo allir starfsmenn klárir í startstöðu og það þurfti í rauninni ekki að gera mikið til að fyrirtækið gæti stokkið af stað aftur og sú var raunin. Við fengum mjög góðan mann með okkur inn, sem þekkti vel til Dominos, hann Magnús Hafliðason en hann hafði bæði áður unnið hjá Dominos á Íslandi og í Danmörku.“