Frans páfi, sem hefur verið duglegur að reyna að bæta ímynd Vatíkansins á Alþjóðavettvangi, lét vopna- og hergagnaframleiðendur heyra það í ræðu sem hann hélt á sunnudag.

Páfinn hefur áður verið gagnrýninn á vopnaiðnaðinn en þó aldrei jafn harðorður og hann var þegar hann hélt ræðu fyrir þúsundir manna í ítölsku borginni Torínó. Sagði hann að fólk sem framleiðir vopn eða fjárfestir í vopnaiðnaðinum geti ekki kallað sig kristið.

„Ég hugsa um fólk, framkvæmdastjóra, viðskiptamenn, sem kalla sjálfa sig kristna og þeir framleiða vopn. Það leiðir til umtalsverðs vantrausts, er það ekki?“ sagði páfi og uppskar dynjandi lófatak.

Frans páfi hefur gert tilraunir til að nútímavæða kaþólsku kirkjuna og hefur hann þorað að ræða málefni á opinskáan hátt sem kirkjan hefur hingað til fordæmt; þ.á.m. hjónabönd samkynhneigðra og notkun getnaðarvarna.