Umræða um veru og umsvif RÚV á auglýsingamarkaði skýtur reglulega upp kollinum en sem kunnugt er aflar RÚV stórum hluta tekna sinna með því að selja auglýsingar.

Umræðan snýst gjarnan um það hvort RÚV eigi á annað borð að vera á auglýsingamarkaði, hvort takmarka eigi umsvif RÚV á markaðnum auk þess sem RÚV hefur verið sakað um að undirbjóða aðra á markaðnum.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Pál Magnússon, útvarpsstjóra. Í viðtalinu fer Páll yfir rekstur og dagsskrárgerð RÚV, stöðu fjölmiðla almennt, umræðuna um hlutdrægni fréttastofu og þáttastjórnenda RÚV og margt fleira. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér.

Páll segir í samtali við Viðskiptablaðið að engin stefnubreyting sé framundan hjá RÚV hvað varðar veru þess á auglýsingamarkaði. RÚV sé ætlað samkvæmt lögum að afla hluta tekna sinna með því að selja auglýsingar.

„Á meðan lögin kveða svo á um þá auðvitað gerum við það. Það er ekki á valdi RÚV eða útvarpsstjóra að hafa einhverja sérstaka stefnu í því. Lögin ætla okkur þetta og á meðan svo er þá gerum við það,“ segir Páll.

„Menn geta hins vegar velt upp ýmsum hugmyndum, t.d. hvort RÚV eigi yfir höfuð að vera á auglýsingamarkaði, hvort að takmarka ætti umsvif RÚV á auglýsingamarkaði og svo frv.“

Hvað finnst þér sjálfum?

„Ég er þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem er núna feli í sér ákveðna þversögn. Það er ákveðin þversögn fólgin í því að reka útvarp og sjónvarp á almannaþjónustugrundvelli og ætla því á sama tíma að afla verulegs hluta tekna sinna á auglýsingamarkaði. Þetta tvennt fer ekki alveg saman,“ segir Páll.

„Að ýmsu leyti væri heppilegra fyrir RÚV sjálft að vera ekki á auglýsingamarkaði. Ég hef áður lýst því yfir að mér finnst alveg koma til greina að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði ef tekjutapið yrði bætt með öðrum hætti. Hins vegar vil ég frekar lifa við þessa þversögn heldur en án þeirra tekna sem auglýsingarnar gefa því þær gera okkur í stakk búin til að sinna almannaþjónustunni betur.“

Páll segist þó skilja umræðuna mjög vel og hann hafi kvartað undan fyrirferð RÚV þegar hann starfaði hjá einkareknum fjölmiðli.