Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Í rauninni er ég ekkert að skipta um skoðun. Ég hef alltaf litið þannig á þingstörf að menn eigi ekki að geta stoppað mál í nefndum þótt þeir séu efnislega ósammála þeim,“ segir Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Áfengisfrumvarpið hlaut afgreiðslu úr allsherjarnefnd og í aðra umræðu á þingi þegar nefndin tók málið fyrir á fundi í morgun. Páll Valur hafði áður lýst því yfir að hann myndi sitja hjá við afgreiðslu málsins hjá nefndinni, en breytti hins vegar þessari afstöðu sinni á fundinum í morgun og greiddi atkvæði með því að frumvarpið fengi þinglega meðferð.

„Þegar þetta mál kom upp um daginn ákvað ég að næst þegar þetta kæmi til umfjöllunar þá myndi ég samþykkja að málið fengi afgreiðslu út úr nefndinni. Þetta er þingmannafrumvarp, ekki stjórnarfrumvarp, og þetta er bara ákvörðun sem ég tók. Ég sagði bara já,“ segir Páll Valur.

Vill ekki áfengi í matvöruverslanir

Þótt Páll Valur hafi greitt atkvæði með afgreiðslu frumvarpsins úr nefndinni í morgun kveðst hann samt sem áður vera andvígur efni frumvarpsins.

„Það sem situr í mér varðandi efnishlið frumvarpsins er að þetta eigi að fara inn í stórmarkaði og matvöruverslanir því ég lít ekki á þetta sem venjulega neysluvöru. Mín vegna má þetta vera í sérverslunum sem reknar eru af einkaaðilum, það skiptir mig engu máli svo framarlega sem ríkið fái einhverjar tekjur af þessu, en ég get ekki samþykkt hitt,“ segir Páll Valur.

Hann segist hafa setið alla fundi þar sem gestir komu til nefndarinnar til þess að lýsa afstöðu sinni á málinu og mikill meirihluti hafi verið á móti frumvarpinu. Segir hann einnig að frumvarpið sé þvert gegn þeirri áfengisstefnu sem samþykkt hafi verið á Alþingi í desember árið 2013.

„Meginmarkmið áfengisstefnunnar er að reyna að draga úr skaðlegum áhrifum á áfengisneyslu. Það eru ótal margir sem kunna ekki að fara með áfengi og það kostar samfélagið okkar gríðarlegar fjárhæðir á hverju einasta ári. Til þess að ná markmiði áfengisstefnunnar þarf að takmarka aðgengi að áfengi. Þetta er meðal þess sem situr í mér,“ útskýrir Páll Valur.

Gekk í gegnum helvíti

Páll Valur segist sjálfur eiga sögu með áfengi og hafi horft upp á hversu slæmar afleiðingar áfengisneysla getur haft.

„Ég er sjálfur óvirkur alkóhólisti og þurfti að ganga í gegnum helvíti í lífi mínu, en tókst sem betur fer með góðri hjálp, meðal annars frá SÁÁ og fjölskyldunni, að ná mér á strik aftur. Ég hef horft upp á það í gegnum tíðina, eins og fleiri, hversu slæmar afleiðingar þetta getur haft,“ segir hann.

Hann segir áfengi ekki vera venjulega neysluvöru. „Þetta er hugbreytandi efni. Þess vegna vil ég ekki sjá þetta í matvöruverslunum,“ segir Páll Valur að lokum.