Stjórnendur kísilversins PCC-Bakka hafa ákveðið að stöðva framleiðslu tímabundið. Ástæðan er vegna lítillar eftirspurnar og því lágs verðs sökum áhrifa af COVID-19 faraldrinum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá félaginu.

Í júlílok verður slökkt á báðum ofnum verksmiðjunnar en sökum þess þarf að segja upp stórum hluta af starfsfólki félagsins. Aðgerðirnar eru hins vegar tímabundnar og gerir félagið ráð fyrir því að endurráða starfsfólk aftur þegar framleiðslan fer aftur af stað.

Enn fremur kemur fram að félagið hafi leitað allra leiða til að halda framleiðslunni gangandi við þessar aðstæður, en vegna þeirrar óvissu sem uppi er í heimshagkerfinu vegna COVID-19 þarf að grípa til tímabundinnar stöðvunar á framleiðslu.

Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC BakkiSilicon hf:

„Það var erfitt að taka þessa ákvörðun og hefðum við fundið raunhæfa leið til að forðast uppsagnir hefðum við farið hana. Ég er hins vegar viss um að heimsmarkaðurinn muni taka við sér að nýju. Þegar það gerist munum við setja uppgerða verksmiðjuna aftur í gang og ráða aftur eins mikið af fólkinu okkar og við getum.“