Peningamagn í umferð jókst lítillega í mars sl. eða um hálfan milljarð króna. Þrátt fyrir það hefur peningamagn í umferð lækkað um rétt rúma 2,3 milljarða frá áramótum samkvæmt tölum Seðlabankans. Rétt er að taka fram að hér er átt við seðla og mynd (lausafé) í umferð.

Samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans voru um 38,5 milljarðar króna af lausafé í umferð í mars samanborið við 40,7 milljarða króna í desember sl. Þá hafði peningamagn í umferð aldrei verið meira samkvæmt tölum frá Seðlabankanum sem ná aftur til ársins 1994. Til gamans má geta að í janúar 1994 voru um 3,4 milljarðar króna í umferð.

Peningamagn í umferð hefur nú aukist um 1,8 milljarða króna á milli ára en um 27 milljarða króna frá því í mars 2008. Eins og sjá má á myndinni hér að ofan jókst magn peninga í umferð gífurlega í október 2008, eða um tæp 90%. Þá fór magn peninga í umferð frá því að vera tæpir 12,6 milljarðar króna í september 2008 í það að vera um 23,7 milljarðar króna í október sama ár. Hefðbundið magn peninga í umferð á milli 11 og 13 milljarðar króna fram að hruni bankanna í október 2008. Síðan þá hefur peningamagn í umferð aukist um 162%.

Nokkuð dró úr peningamagni í umferð í ársbyrjun 2009 en í júní sama ár jókst peningamagn í umferð á ný og hefur, eins og sést á myndinni hér að neðan, fari stighækkandi síðan þá. Peningamagn í umferð hefur náð hámarki undir lok hvers árs frá árinu 2009 og lækkað aftur í janúar árið eftir, en síðan aukist á ný fram undir næstu áramót.

© vb.is (vb.is)