*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 2. janúar 2017 19:56

Peningastefnunefnd undir pressu

Alþingismenn, almenningur og atvinnulíf kalla eftir lægri vöxtum. Óhætt er að segja að peningastefnunefndin sé undir pressu.

Ritstjórn
Már Guðmundsson, Seðlabanki Íslands
Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kom íslenska efnahagskerfinu á óvart 14. desember 2016, með 0,25% vaxtalækkun. Flestar greiningadeildir höfðu spáð óbreyttum meginvöxtum (vextir á sjö daga bundnum innlánum) og því tóku markaðir kipp þegar tilkynnt var að stýrivextirnir yrðu 5%.

Enn er gríðarlegur vaxtamunur milli Íslands og helstu samanburðarþjóða landsins og telja margir vexti allt of háa. Óhætt er að segja að peningastefnunefndin sé undir mikilli pressu, en atvinnulífið, almenningur og alþingi virðast kalla á frekari vaxtalækkanir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, vakti til að mynda athygli á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands í áramótaávarpi sínu. Hann sagði bankann halda vöxtum of háum og taldi einnig æskilegt að kanna nýjar lausnir í peningamálum.

Samkvæmt Morgunblaðinu, er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, einnig sömu skoðunar. Í viðtali við blaðið sagði hann stýrivexti hið minnsta prósentustigi of háa.

Fyrstu vaxtaákvörðunardagar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands á þessu ári eru 8. febrúar og 15. mars næstkomandi. Hægt er að sjá dagana hér.