Viðskiptaráð tekur undir þá gagnrýni Landspítalans að orðalag útektar ráðsins hafi verið of afdráttarlaust og að ýmis atriði greinarinnar verðskuldi ítarlegri umfjöllun.

Kemur þetta fram í viðbrögðum ráðsins við athugasemdum Landspítalans við umfjöllun ráðsins um heilbrigðismál sem birtist undir yfirsktiftinni „Óskilgreind fjárútlát gagnast ekki sjúklingum“ en þar segir ráðið orðalagið of afdráttarlaust með hliðsjón af því að ekki sé um tæmandi umfjöllun að ræða.

Vilja fá aukna þjónustu eða lækkun kostnaðarþátttöku

Hins vegar áréttir ráðið að meginskilaboð umfjöllunarinnar séu þau sömu og áður:

„ Stjórnvöldum hvers tíma ber að tryggja að aukin fjárframlög til heilbrigðismála nýtist í aukna þjónustu við sjúklinga eða lækkun kostnaðarþátttöku þeirra. Til að svo megi verða ættu aukin fjárútlát til heilbrigðismála að vera eyrnamerkt slíkum umbótum,“ segir í tilkynningu ráðsins.

„Það er því eðlileg krafa að stjórnmálaöfl geri betur grein fyrir með hvaða hætti þau hyggjast ráðstafa þeim auknu útgjöldum sem lofað hefur verið til heilbrigðismála. Skýr stefna í heilbrigðismálum skiptir sköpum fyrir árangur.“

Launakostnaður skýrir aukinn rekstrarkostnað

Jafnframt undirstrikar ráðið að upplýsingarnar sem birtast í umfjölluninni byggi á opinberum gögnum, þá helst á nýlegri úttekt McKinsey & Company á starfsemi Landspítalans, en þar birtist orðrétt eftirfarandi texti:

„Frá árinu 2012 hefur launakostnaður verið helsta ástæða aukins rekstrarkostnaðar Landspítalans. Aukningin hefur einkum verið vegna aukins kostnaðar á hvert stöðugildi en fjölgun stöðugilda hefur verið takmörkuð. Vegna nýlegra kjarasamninga hins opinbera hafa laun á Landspítalanum hækkað hraðar en meðallaun á Íslandi. Sérstaklega hafa laun lækna hækkað en það var talið nauðsynlegt til þess að gera störf þeirra meira aðlaðandi. Á sama tíma og kostnaður hefur aukist hafa afköst á sjúkrahúsinu minnkað […]“

Landlæknir líkir óskipulögðum fjárútlátum við að henda peningum í sjóinn

Jafnframt vísar ráðið í orð Landlæknis um úttekt fyrirtækisins að lítið hafi komið fram um með hvaða hætti stjórnmálaöfl hyggist auknum fjármunum sem ætlunin sé að setja í heilbrigðiskerfið:

“að setja meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið án þess að marka skýra stefnu er held ég bara að henda peningum í sjóinn”.