Persónuvernd telur að úrbætur þurfi að gera á vissum atriðum er varða framkvæmd innra eftirlits hjá Neyðarlínunni hf., en embættið hefur nýlokið við úttekt á starfsemi fyrirtækisins. Persónuvernd telur þó að fyrir utan þau atriði sem gerð eru athugasemdir við fullnægi öryggi persónuupplýsinga hjá Neyðarlínunni kröfum laga og reglna.

Persónuvernd gerir m.a. kröfu um að allir starfsmenn fyrirtækisins hafi undirritað trúnaðar- og þagnaryfirlýsingar þar sem skyldur þeirra eru raktar, að fjallað verði um öryggismál á starfsmannafundum, gerð verði skrifleg afritunaráætlun og haldin verði skrá um daglegan tölvurekstur, t.d. hvenær kerfi eru ræst og hvenær stöðvuð, bilanir, viðgerðir o.fl.

Einnig gerir Persónuvernd kröfu um að skráð verði hverjir komi inn í Samhæfingarstöð, varðstofur og tæknirými, sem og hvenær þeir komi þangað og hvenær þeir fari. Persónuvernd segir einnig nauðsynlegt að tekin verði saman heildstæð eignaskrá fyrir Neyðarlínuna hf., efni hennar skjalfest og viðhaldið reglulega, til þess að myndaður verði traustur grunnur undir ákvarðanir í framtíðinni er varða áhættumat og val á öryggisráðstöfunum