Ákvæði laga um eignarhald á fjölmiðlum er ekki fullkomið og standa yfir endurbætur á þeim sem veita fjölmiðlanefnd skarpari heimildir til að krefjast upplýsinga um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við spurningu Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Pétur spurði ráðherra hvort hún væri sátt við þá stöðu að eignarhald á 365 sé dreift út og suður, virðist teygja anga til karabíska hafsins og Lúxemborgar og að ekki liggi skýrt fyrir hverji eigi fyrirtækið.

„Hvers vegna eru menn að stofna eignarhaldsfélög út um allt til að stofna hér fjölmiðlafyrirtæki? Af hverju stofna menn ekki bara fyrirtækið í Hafnarfirði?“ spurði Pétur og hélt áfram: „Mér finnst að þeir sem þykjast eiga fjölmiðla annað hvort upplýsi um eignarhaldið eða hafi ekki atkvæðis- eða arðsrétt í viðkomandi fjölmiðlafyrirtæki.“

Eignarhald á 365 hefur annað slagið komið til tals í kjölfar skrifa Ingimars Karls Helgasonar sem benti á að það á Smugunni að félag sem hélt utan um helmingshlut Jóhannesar Jónssonar, stofnanda Bónuss og viðskiptafélaga hans í færeyska verslunarfyrirtækinu SMS, ætti einnig í 365. Við það vöknuðu upp spurningar hvort Ingibjörg ætti ein eignarhaldsfélögin sem eiga fjölmiðlaveldið.

Félögin eru Moon Capital, sem skráð er í Lúxemborg, ML 102 ehf og IP Studium og eiga þau 90% af A- og B-hlutafé 365.

Ingibjörg svaraði því í tölvuskeyti til Morgunblaðsins á dögunum að hún eigi sjálf um 90% í 365.