Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu var í dag sýknaður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í meiðyrðamáli sem Kristján Snorri Ingólfsson höfðaði gegn honum.

Málið var höfðað vegna ummæla sem birtust á vefmiðilnum Eyjunni árið 2014. Ummælin voru:

„Það þarf að greiða skuldir flokksins, en þetta fer bara í einkaneyslu hjá þeim og þeir fara bara á HM í Brasilíu. Þeir eru ekki að borga skuldirnar. Það er ljóst miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja að þeir eru að nota þessa peninga í sína eigin þágu. Þeir settu þetta inn á einkareikning sinn.“

Málið er rakið til Flokks heimilanna og fjármagns sem flokkurinn átti að fá úr ríkissjóð eftir kosningarnar 2013. Var því haldið fram að fjármagnið hafi aldrei runnið til flokksins og að Kristján Snorri, formaður Lýðveldisflokksins, hafi setið á fénu. Í niðurstöðu dómsins segir:

„Ljóst er því að bróðir stefnanda og félag sem virðist stofnað utan um einstaklingsrekstur stefnanda höfðu fengið alls 5.320.000 kr. greiddar úr sjóðum flokksins þegar stefndi lét hin umdeildu ummæli falla í samtali við vefmiðilinn Eyjuna 4. júlí 2014. Þótt greiðslur til framkvæmdastjóra flokksins hafi farið fram á grundvelli ráðningarsamnings verður ekki önnur ályktun dregin af vitnisburði hans fyrir dómi, sem og vitnisburði annarra vitna og gögnum málsins, en að starfsemi á vegum Flokks heimilanna hafi verið afar umsvifalítil í kjölfar Alþingiskosninganna 2013 og fram að þeim tíma sem stefndi viðhafði ummælin sem dómkröfur stefnanda lúta að.

Að því er snertir skuldastöðu Flokks heimilanna bar vitnið Pálmey Helga Gísladóttir, sem skipaði efsta sæti á framboðslista Flokks heimilanna í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2013, fyrir dómi að sér hefði ekki enn tekist að innheimta fjármuni sem hún teldi að Flokkur heimilanna skuldaði sér vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við Alþingiskosningarnar 2013. Þá kom fram í vitnisburði Halldórs Gunnarssonar, eins stofnenda Flokks heimilanna, að hann hefði átt í miklum erfiðleikum með að innheimta til baka lán sem hann veitti flokknum að fjárhæð 1.000.000 kr. í tengslum við framboð flokksins en það hefði fyrst tekist þegar hann leitaði sér lögmannsaðstoðar í tengslum við innheimtuna.“

Dómurinn segir að sýnt hafi verið framá að nægar líkur séu um rétmæti þeirra ummæla sem krafist var ómerkingar á og lágu til grundvallar miskabótakröfu.