*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 17. september 2020 09:42

Play eignfærir launakostnað

Launagreiðslur Play námu 95,6 milljónum króna á síðasta ári og voru stöðugildi félagsins 17.

Alexander Giess
Arnar Már Magnússon er forstjóri Play.

Flugfélagið Play tapaði ríflega 54 milljónum króna á síðasta ári, sem var fyrsta ár félagsins í rekstri. Launagreiðslur félagsins námu 95,6 milljónum og voru stöðugildi þess 17. Tap fyrir fjármagnsliði nam um 52 milljónum þar sem annar rekstrarkostnaður nam 41 milljón og laun og tengd gjöld námu um 11 milljónum. Félagið var ekki með neinar tekjur á árinu.

Má rekja lágan launakostnað á rekstrarreikningi Fly Play til þess að félagið eignfærði launakostnað fyrir alls 106,5 milljónir króna. Eignir Play námu 309 milljónum króna í lok árs, þar af námu óefnislegar eignir 259 milljónum og skammtímakröfur 35 milljónum.

Sjá einnig: Play vill lendingarleyfi Icelandair

Hlutafé Fly Play var aukið um 50 milljónir króna í fyrra en áður var það hálf milljón. Eini eigandi félagsins var Neo ehf. í lok árs en fyrr á þessu ári var eignarhaldið fært í félagið Fea ehf. sem er í eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Play.

Á árinu voru 140 milljónir króna eignfærðar sökum hugbúnaðar, 96 milljónir vegna flugrekstrarleyfis og 23 milljónir vegna vörumerkis. Skuldir félagsins námu tæplega 313 milljónum króna í lok ársins og var eigið fé félagsins neikvætt um tæplega fjórar milljónir.