Polimoon, sem er að fullu í eigu Promens hf, hefur yfirtekið fyrirtækið Dekoplast í Frakklandi. Dekoplast, sem framleiðir umbúðir fyrir snyrtivöru- og lyfjaframleiðendur, er með árlega sölu yfir 17 milljón evrur eða um 1.450 milljónir króna. Yfirtakan er fjármögnuð með lánalínu hjá DnBNOR segir í frétt félagsins.

Rekstur Dekoplast hefur á síðustu misserum verið óviðunandi og fór félagið í greiðslustöðvun í árslok 2006. Dekoplast hefur verið með starfsemi í tveimur verksmiðjum í Frakklandi og hyggst Polimoon sameina starfsemi þeirra í eina. Samhliða þessu verður unnið að framleiðni aukningu í verksmiðjunni og vöruframboð hennar styrkt. Polimoon mun sameina rekstur Dekoplast annarri starfsemi félagsins í Frakklandi og sér mikil framtíðartækifæri í rekstri verksmiðjunnar innan núverandi rekstrar. Yfirtaka þessi styrkir stöðu Polimoon á meginlandi Evrópu enn frekar í framleiðslu plastumbúða segir í fréttinni.

?Ég er sannfærð um að yfirtakan á Dekoplast gefur okkur ýmis tækifæri til að efla starfsemi þess og auka framleiðni. Við munum sameina starfsemi fyrirtækjanna tveggja og styrkja hana með þeirri miklu þekkingu sem er til staðar hjá Promens og Polimoon. Það er því ánægjulegt að okkur tókst að ná samkomulagi um yfirtöku á Dekoplast og mun það efla Polimoon og Promens til lengri tíma litið?. segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens í tilkynningu.

Yfirtakan tekur gildi 11. júní 2007.


Promens er leiðandi fyrirtæki í plastframleiðslu í heiminum með yfir 60 verksmiðjur í Evrópu, Norður Ameríku, Asíu og Afríku. Fyrirtækið framleiðir mikið úrval umbúða þ.m.t. neytenda-, efna-, lyfja- og matvælaumbúðir auk þess að framleiða plastíhluti fyrir bíla-, þungavinnuvéla- og rafeindaiðnaðinn. Verksmiðjur Promens nýta flestar framleiðsluaðferðir sem þekkjast innan plastiðnaðarins í dag, s.s. sprautusteypu (injection molding), blástursmótun (blowmolding) og vakúmmótun (thermoforming) auk þess að vera stærsti framleiðandi herfisteyptra (rotomolded) plasteininga í heiminum í dag.

Promens veltir um 710 milljónum Evra á ári og heildar fjöldi starfsmanna er um 5800. Helstu eigendur Promens eru fjárfestingafélagið Atorka Group hf. og Landsbankinn.