Bjarni Benadiktsson forsætisráðherra, var í viðtali í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Þar var farið yfir stjórnarslitin, sýn hans á stjórnmálin, ástæðuna fyrir veru hans í stjórnmálum og fleira.

Kannanir benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn mælist undir kjörfylgi síðustu kosninga og þónokkuð undir kjörfylgi flokksins í sögulegu samhengi. Þetta hljóta að vera miklar áskoranir.

„Já. Mig rekur ekki minni til að staðan hafi verið betri en nú fyrir síðustu þrennar kosningar,“ segir Bjarni, „en mér finnst ágætt að það sé áskorun í stöðunni. Við fengum töluvert betri útkomu, bæði í síðustu kosningum og kosningunum þar á undan en kannanir gáfu til kynna. Af þeirri ástæðu lít ég á kannanir sem vísbendingar um einhverja stöðu. Þær mæla ekki það sem gerist eftir 30 daga, þær mæla bara stöðuna í gær og dagana þar á undan.“

Útilokar ekki samstarf við VG

Þú sagðir lítinn innri styrk vera veikleika minni flokka. Ef marka má kannanir virð­ ist verða einn stór flokkur á þingi, auk Sjálfstæðisflokksins, Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Það er þrálátur orðrómur um óformlegar viðræður milli flokkanna. Sérðu fyrir þér stjórnarsamstarf við VG?

„Ég mun ekki semja aftur við fólk sem hefur enga stjórn á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Ef ég hefði vitað að þegar ríkisstjórnin lenti í andstreymi – sem gerist í öllum ríkisstjórnum – að framhaldið réðist ekki af vilja formannsins og þingflokksins, heldur af netkosningu 40 til 50 manna baklands, þá hefði ég aldrei lagt af stað. Maður semur ekki við þá sem ekki geta horft í augun á manni og sest niður og leyst úr málum. Myndi ég semja við VG? Ég ætla bara ekkert að útiloka það frekar en annað. Ég sat hér fyrir ári síðan og gerði mjög heiðarlega tilraun til að ná saman við þau og get vel treyst mér að setjast aftur yfir málin með þeim ef það verður niðurstaðan úr kosningunum. Það er auðvitað langt á milli okkar í sumum málefnum. Þau leggja meiri áherslu á tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins og boða þess vegna nokkuð ákveðið skattahækkanir, sem ég sé ekki að sé þörf fyrir. En mér finnst fara ágætlega saman að við viljum leggja áherslu á gott og öflugt velferðarkerfi en ágreiningurinn snýst kannski meira um hvernig við rísum undir því. Ég sé það ekki sem óyfirstíganlega hindrun.“

Bjarni lýsir áhyggjum af því að atkvæði muni dreifast svo mikið að erfitt verði að púsla saman nýjum meirihluta og einnig af því að menn skuli „hver á eftir öðrum stofna nýjan flokk um þröng sérsjónarmið sem þeir eru á endanum illfáanlegir til að gera málamiðlun um. Við lendum í vandræðum við stjórn landsins ef sífellt fleiri stunda afarkostapólitík.“

Síðustu þrjár ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa ekki setið út kjörtímabilið. Er Sjálfstæðisflokkurinn það stöðugleikaafl í íslenskum stjórnmálum sem hann álítur sig vera í ljósi þessa?

„Mér finnst mjög skiljanlegt að menn velti þessu upp,“ segir Bjarni. „Það þarf að skoða hvert og eitt tilvik. Árið 2009 var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem hljópst undan merkjum, það var Samfylkingin sem þá klauf ríkisstjórnina. Í fyrra gerist það á einum degi að þáverandi formaður Framsóknarflokksins ætlaði að rjúfa þing en steig svo til hliðar. Hann ræddi hvorugt við mig. Framsóknarflokkurinn óskaði eftir áframhaldandi samstarfi og Sjálfstæðisflokknum var í lófa lagið ef við hefðum viljað að segja að nú skyldi ganga til kosninga. En við gerðum það ekki heldur ákváðum að ljúka nokkrum ófrágengnum málum og ganga svo til kosninga. Þannig að við tókum algjörlega stjórn á þeirri stöðu. Þá var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem var að valda uppnáminu heldur hræringar inni í Framsóknarflokknum.“

Bjarni bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt við sig fylgi í þeim kosningum sem haldnar voru í kjölfarið. „Ég veit ekki hvernig maður á að túlka það sem einhvern óróleika sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á. Og í þessu tilviki núna segi ég einfaldlega að smáflokkasamstarfið hafi brugðist. Ég óskaði eftir því við Bjarta framtíð að þau í flokknum myndu styðja að vinnu við fjárlagafrumvarpið yrði lokið í þinginu og gengið til kosninga á nýju ári. Því var hafnað. En samt voru þau orð látin falla í mín eyru að þau vildu ekki kosningar. Þetta er fullkomið ábyrgðar- og úrræðaleysi sem þau hafa valdið og ég ætla ekki að taka ábyrgð á því.“

Nánar er rætt við Bjarna Benediktsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .