„Ég er þannig gerður að mér gengur ágætlega að komast út í daginn. Sama hvað gengur á, það kemur alltaf nýr dagur,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, tíu dögum eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.

„Hins vegar eru auðvitað vonbrigði að þetta skyldi fara svona hjá þessari stjórn eftir þetta skamman tíma og með þessum hætti og á þessum forsendum. Mér finnst í raun ótrúlegt að það skyldi gerast,“ segir Bjarni. Stjórninni, sem varð til eftir margar tilraunir til stjórnarmyndunar síðasta vetur, var slitið eftir aðeins 247 daga og varð með því skammlífasta meirihlutastjórn í sögu lýðveldisins.

Menn velta vöngum yfir því hvort Björt framtíð hafi verið óánægð í stjórnarsamstarfinu að leita að leið út. Það er ekki tilfinning Bjarna. „Ég vissi að ef Björt framtíð og Viðreisn myndu mælast með um fimm prósent fylgi eða minna í einhvern tíma, þá væri veruleg hætta á að það myndi hrikta í stoðum þeirra. Það má segja að það sé veikleikinn sem þessir flokkar koma með inn í svona samstarf. Þeir hafa ekki mikinn innri styrk,“ segir Bjarni.

„Ég ræddi til dæmis við Óttarr þegar hann gekk inn á þennan fund þar sem ákvörðunin um stjórnarslit var tekin, nokkrum mínútum áður en hann hófst. Óttarr ræddi ekki um neinn trúnaðarbrest í því samtali við mig,“ segir Bjarni og vísar þar til yfirlýsingar Bjartrar framtíðar þar sem trúnaðarbrestur er sagður ástæða stjórnarslitanna.

„Það var ekki að heyra á Óttari, heldur sýnist mér grasrótin hafa tekið yfir og samþykkt, án nokkurrar viðleitni til að setjast yfir hlutina og ræða málin, að slíta stjórnarsamstarfinu. Þetta er einhver furðuleg blanda af reynsluleysi og ábyrgðarleysi, en ég hafði ekki haft á tilfinningunni að þau væru að leita að útgönguleið,“ segir Bjarni.

Bjarni segir Bjarta framtíð hafa í stjórnarmyndunarviðræðum lagt áherslu á að flokkurinn gæti tekist á við þunga málaflokka. „Ég virði það mjög við Óttarr. Hann beinlínis falaðist eftir heilbrigðisráðuneytinu til að undirstrika það og mér fannst hann sinna því eins vel og hægt er. Þetta er erfitt ráðuneyti,“ segir Bjarni. „Heilbrigðismálin eru í öðru samhengi eitt besta dæmið um það hversu miklu skiptir að horfa vítt yfir stefnumál flokkanna þegar menn skoða fyrir hvað þeir standa. Við erum flokkur sem leggur höfuðáherslu á að án efnahagslegra framfara og blómstrandi atvinnulífs þá gerist mjög lítið í málaflokkum eins og heilbrigðismálum.“

Efnahagsástandið bauð ekki annað en niðurskurð

Bjarni tekur í því samhengi dæmi af ríkisstjórninni sem tók við eftir hrun og skar niður til heilbrigðismála. „Það var ekki gert vegna þess að flokkarnir stæðu fyrir niðurskurð í heilbrigðismálum, heldur vegna þess að efnahagsástandið bauð ekki upp á annað en að menn héldu aftur af sér með útgjaldavöxt. Og svo til samanburðar getum við horft á þá aukningu sem hefur verið undanfarin ár. Við höfum sett 50 milljarða á þremur árum í heilbrigðis- og velferðarmál umfram það sem áður var. Það er hægt vegna þess að við höfum viðspyrnu í sterkum efnahag. Þetta er órjúfanlegt samhengi hlutanna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.