„Ég er mjög spennt fyrir þessu og ég vona allavega að fólk nenni að horfa á þetta,“ segir Unnur Eggertsdóttir, söngkona og dansari. Unnur mun stýra nýjum sjónvarpsþætti sem hefur göngu sína á Stöð 2 nú í byrjun október. Þátturinn heitir Popp og kók og verður sýndur á föstudagskvöldum, í opinni dagskrá, og byrjar strax eftir kvöldfréttir.

Þættirnir verða tólf til að byrja með og það er framleiðslufyrirtækið Stórveldið framleiðir þá. „Þeir hjá Stórveldinu höfðu samband og sögðust vera að gera nýjan þátt og vildu nýtt andlit til að stýra þættinum.

Þátturinn verður ekki í beinni útsendingu heldur við vinnum við hann í vikunni á undan. Ég mun taka viðtöl við áhugavert fólk sem tengist tónlist og kvikmyndum. Þetta er mjög skemmtilegt en krefjandi verkefni enda hef ég aldrei áður gert neitt þessu líkt,“ segir Unnur.