Claudio Albrecht, forstjóri Actavis, segir Zug í Sviss mun betur til þess fallið að hýsa höfuðstöðvar félagsins heldur en Hafnarfjörður. Hafnarfjörður hafi í raun aldrei gegnt fyllilega hlutverki sem eiginlegar höfuðstöðvar.

„Af 15 æðstu stjórnendum voru aðeins 5 þeirra staðsettir á Íslandi. Aðrir voru dreifðir um allan heim,“ segir Albrecht. Alls munu um 150 starfsmenn starfa í Zug. Nú þegar hafa um 100 þeirra, frá 29 löndum, komið sér fyrir í bænum sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá Zurich.

Nágrannar Prosche

Í opnunarræðu sinni á vígsluathöfn Actavis-turnsins, sem hefur fengið heitið „The Orange Power Tower“, mærði Albrecht stjórnvöld í Zug og þakkaði þeim sérstaklega fyrir liðleg viðbrögð. Hann sagði að þau hafi tekið sérstaklega vel í fyrirspurnir Actavis og bent þeim á nýbygginguna en hún stendur við hliðina á þremur öðrum turnum. Framkvæmdir eru á lokastigi og mun bílaframleiðandinn Porsche verða nágranni Actavis, en þeir ætla að flytja höfuðstöðvar sínar á næstunni.

Lágskattastefna hefur aðdráttarafl

Actavis og Porsche eru ekki einu fyrirtækin sem hafa flust eða hyggjast flytjast til Zug. Þar er rekin lágskattastefna sem laðað hefur að fjölmörg fyrirtæki. Bandaríski fréttaskýringaþátturinn 60 mínútur fjallaði nýverið um Zug og kom fram að þangað flytjast um 800 fyrirtæki á hverju ári. Albrecht ítrekar samt sem áður mikilvægi Íslands og að heimilisfesti verði áfram í Hafnarfirði. Einungis brot af heildarframleiðslu félagsins er þó á Íslandi. Mikilvægi felst því einkum í rannsóknum og þróun samheitalyfja, sem þykir einna best á Íslandi.