Gengi sterlingspunds gagnvart Bandaríkjadal fór í fyrsta sinn síðan árið 1992 yfir tvo dali á mörkuðum í gær í kjölfar þess að tilkynnt var um hærri verðbólgumælingu en búist var við. Í mars mældist verðbólga í Bretland 3,1% á ársgrundvelli og er því fastlega búist við að stjórnendur Englandsbanka hækki vexti í 5,5% þann 10. maí. Ef af þeirri hækkun verður munu stýrivextir hvergi vera hærri meðal sjö stærstu iðnríkja heims (G-7). Á sama tíma og tölur sýndu meiri verðbólgu í Bretlandi voru mælingar birtar í Bandaríkjunum og sýndu þær minni verðbólguþrýsting en vænst hafði verið og því kann vaxtamunurinn milli landanna að aukast enn frekar á næstunni.

Verðbólga hefur ekki mælst meiri í tíu ár í Bretlandi en aukningin er meðal annars rakin til hækkunar á matvörur, auk þess sem hækkun á orkuverði í heiminum að undanförnu hefur skapað verðbólguþrýsting í landinu líkt og annar staðar. Englandsbanki hefur hækkað vexti þrisvar síðan í ágústmánuði. Flestir sérfræðingar telja öruggt að fjórða hækkunin komi í ágúst og sumir telja jafnframt líklegt að til fleiri hækkana komi á árinu. Það kann að draga úr líkum á þeim reynist spár manna sannar um að orkuverð taki að lækka á næstunni.

Síðast þegar pundið varð jafn sterkt gagnvart Bandaríkjadal var í aðdraganda gjaldeyriskreppunnar í september 1992, en sökum íþyngjandi reglna um flökt pundsins þurftu stjórnvöld að draga það úr myntsamstarfi Evrópu (e. European Exchange Mechanism).