Arna Schram hefur verið ráðin forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar. Starfið var auglýst laust til umsóknar í desember í fyrra. Arna hefur gegnt starfi upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar síðastliðin fjögur ár og samhliða því starfi menningarfulltrúa í þrjú ár. Hún var valin úr hópi 37 umsækjenda um starfið að því er segir í tilkynningu. Capacent hélt utan um ráðningarferlið. Arna var talin hæfust umsækjenda til að gegna starfinu.

Fram kemur í tilkynningunni að forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar ber ábyrgð á menningarmálum Kópavogsbæjar og hefur eftirlit með menningarhúsum og söfnum Kópavogbæjar; Gerðarsafni, Salnum, Bókasafni Kópavogs, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Tónlistarsafni Íslands og Héraðsskjalasafni Kópavogs. Forstöðumaður stýrir jafnframt menningarviðburðum bæjarins, hefur yfirumsjón með markaðssetningu menningarstofnana og menningarviðburða og starfar með lista- og menningarráði bæjarins að verkefnum þess.

Með skipulagsbreytingum hjá Kópavogsbæ síðastliðið haust var ákveðið að efla enn frekar menningarstarf bæjarins og í kjölfarið var staða forstöðumanns Listhúss Kópavogsbæjar auglýst. Arna lætur af störfum sínum sem forstöðumaður almannatengsla og verður það starf auglýst laust til umsóknar nú um helgina.

Arna er með BA-próf í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla en vorið 2013 brautskráðist hún með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en hún hóf störf hjá Kópavogsbæ starfaði hún um hríð hjá Háskólanum í Reykjavík og þar áður við blaðamennsku um árabil, lengst af á Morgunblaðinu, en einnig á Krónikunni og Viðskiptablaðinu. Hún hefur gegnt formennsku og ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands, setið í stjórn Íslenska dansflokksins og verið formaður stjórnar Listdansskóla Íslands.